154. löggjafarþing — 107. fundur,  6. maí 2024.

öryggi í knattspyrnuhúsum og fjölnota íþróttahúsum.

794. mál
[18:23]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Líneik Anna Sævarsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svörin. Eftir að hafa rýnt þetta reglu- og lagaumhverfi aðeins þá beinast mínar sjónir að reglum menntamálaráðherra um öryggi í íþróttahúsum frá 2003. Þar kemur fram að hluti af innra eftirliti íþróttahúsa eru gátlistar og færslur í öryggis- og eftirlitshandbók en ýmislegt finnst mér benda til að þar vanti gátlista um öryggi aftan við endalínu valla í knattspyrnu- og fjölnota íþróttahúsum landsins, enda kemur fram þegar maður fer að rýna þessar reglur að líklega voru þær undirbúnar áður en fyrsta fjölnota húsið var tekið í notkun. Þó að þær hafi síðan ekki verið staðfestar fyrr en 2003 þá held ég að kannski eitt eða tvö af þessum húsum hafi verið komin í starfsemi. En í skýringum við reglurnar segir um meðferð búnaðar, með leyfi forseta:

„Einnig á að vera sjálfsagður hlutur að búnaður sé ekki skilinn eftir svo nálægt leikvelli, hliðarlínum eða endalínum að iðkendum geti stafað hætta af honum.“

Þrátt fyrir þetta þá þekki ég glæný dæmi um að knattspyrnuleikir hafi farið fram á meðan laus mörk eru staðsett rétt aftan við eða hreinlega á endalínum valla. Það er einmitt margt gott í þessum reglum frá 2003 en alveg kominn tími á uppfærslu að mínu mati. Það ætti að vera öllum ljóst sem ganga um húsin að hættan er til staðar og viðbragða er þörf en ég held að við þurfum vitundarvakningu eins og hæstv. ráðherra kom inn á og hefur kannski átt sér stað núna með auglýsingar á gólfum í íþróttahúsum. Vonandi getum við farið í vitundarvakningu án þess að það þurfi fleiri óhöpp til. Þar þurfa ríki og sveitarfélög að vinna með íþróttahreyfingunni, bæði varðandi uppfærslu á reglunum og bara almenna vitundarvakningu um öryggi barna og fullorðinna.